Landfræðilegt og efnahagslegt litróf landbúnaðar á Íslandi

VífillFréttir

Mynd Bændablaðsins

Í dag kom út skýrslan landfræðilegt og efnahagslegt litróf landbúnaðar á Íslandi. Meðal niðurstaðna er að rekstrartekjur landbúnaðar á Íslandi voru 73,2 ma.kr. árið 2017 og höfðu aukist um 13 ma.kr. frá 2008 að raungildi. Sé horft til skiptingar rekstrartekna eftir landshlutum er landbúnaður stærstur á Suðurlandi um 28% og næst stærstur á Norðurlandi eystra og Vestfjörðum eða 16% á hvoru landsvæði um sig. Minnstur er hann á Suðurnesjum eða 3%. Á höfuðborgarsvæðinu eru 12% tekna landbúnaðar. Þegar horft var til vægis landbúnaðar innan hvers landshluta kom í ljós að hann var mikilvægastur á Norðurlandi vestra þar sem hann vó 8% af framleiðsluvirði landshlutans og 6% á Suðurlandi. Á þennan hátt hefur hann minnstu þýðingu á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Skýrsluna finnið þið hér (Smellið).
Ólíkt ýmsum öðrum atvinnugreinum hefur landbúnaður stutt við ýmsa mikilvæga þætti aðra en að framleiða matvæli. Það má sjá t.d. á fjölþættri tengingu hans við ferðaþjónustu bæði hvað varðar að stuðla að dreifðri þjónustu við ferðamenn, öryggi vegfarenda, aðgengi að fjölda náttúru- og menningarminja sem og sagnaarfi. Einnig má benda á mikilvægi þess að landbúnaður hefur viðhaldið sérstöðu íslenskra matvæla, búfjárkynja og ullarvara gagnvart erlendum gestum.
Tilefni skýrslunnar má rekja til breytinga í ytra umhverfi atvinnugreinarinnar. Þar má nefna afkomu greinarinnar ásamt frekari áformum um innflutning á erlendum búvörum, en jafnframt aukin meðvitund um áskoranir okkar í umhverfismálum, vistspori okkar sem neytenda, matarsóun, velferð dýra og heilnæmi þeirra matvæla sem við neytum.
Þessi skýrsla var unnin í samstarfi við öll atvinnuþróunarfélög og landshlutasamtök á landinu.