Landfræðilegt og efnahagslegt litróf garðyrkju á Íslandi

VífillFréttir

Í dag kom út skýrslan landfræðilegt og efnahagslegt litróf garðyrkju á Íslandi. Meðal niðurstaðna er að rekstrartekjur garðyrkju á Íslandi voru 6,1 ma.kr. árið 2017 á meðan þær voru 73,2 ma.kr. í öllum landbúnaði á Íslandi. Tekjurnar höfðu aukist um 800 milljónir króna á tímabilinu 2008-2017 eða 13% að raungildi en 13 ma.kr. í öllum landbúnaði. Sé horft til skiptingar rekstrartekna eftir landshlutum er garðyrkja stærst á Suðurlandi eða um 67% og næst stærst á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum ef þeim var slegið saman eða 14% og Norðurlandi eystra eða 9%. Minnst er hún 1% á Norðurlandi vestra. Þegar horft var til vægis garðyrkju  innan hvers landshluta kom í ljós að hún var mikilvægast á Suðurlandi þar sem hún vó 1,5% af verðmætasköpun landshlutans og 0,2% á Norðurlandi eystra þar sem hún var næst í röðinni. Á þennan hátt hefur hún minnstu þýðingu á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Atvinnugreinin virðist standa vel og eiga góð tækifæri til vaxtar.

Markmið og viðfangsefni skýrslunnar er að veita yfirlit yfir umfang garðyrkju í einstaka landshlutum á Íslandi en þó með áherslu á hlut Suðurlands. Aukinn innflutningur, áskoranir í umhverfismálum, umræða um orkumál og samningar á starfsskilyrðum ýmissa búgreina voru meðal ástæðna þess að ráðist var í þessa skýrslugerð.

Þessi skýrsla var unnin fyrir Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi en byggir á samstarfi atvinnuþróunarfélaganna, Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna. Skýrsluna alla má nálgast hér.