47 – SSV stjórn

admin

47 – SSV stjórn

F U N D A R G E R Ð

 

Stjórnarfundar í stjórn SSV  haldinn á á skrifstofu SSV í Borgarnesi

28. apríl 2006  kl. 10.

 

Stjórnarfundur í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, haldinn í Borgarnesi föstudaginn 28. apríl 2006.
Mættir voru: Helga Halldórsdóttir, Sigríður Finsen, Ólína Kristinsdóttir, Kristján Sveinsson, Jón Gunnlaugsson, Sveinbjörn Eyjólfsson og Þorsteinn Jónsson.  Einnig sat fundinn Ólafur Sveinsson.

 

Dagskrá fundarsins:

 

1.  Starfsmannamál.

2.  Breyting á starfsemi Byggðastofnunar – atvinnuþróunarfélög

3.  Vaxtasamningur Vesturlands – staða mála

4.  Önnur mál

 

Formaður setti fund og var gengið til dagskrár.

 

1. Starfsmannamál.

Ólafur Sveinsson greindi frá stöðu mála.  Þorbergur Þórsson hætti störfum um síðustu mánaðarmót og tveir starfsmenn eru í veikindafríi.  Vífill Karlsson mun koma úr fríi og starfa í maí að vaxtasamningi Vesturlands ásamt Ingu Dóru Halldórsdóttur.  Ólafi falið að ráða starfsmann í afgreiðslu og bókhald tímabundið.

 

 

2. Breyting á starfsemi Byggðastofnunar – atvinnuþróunarfélög.

Lögð fram umsögn  Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og Atvinnuráðgjafar Vesturlands um frumvarp til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.   Miklar umræður urðu um frumvarpið.

 

Svohljóðandi bókun var samþykkt vegna frumvarpsins:

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Atvinnuráðgjöf Vesturlands fagna aðgerðum sem efla atvinnuþróun í landshlutunum enda hafa þau lengi lagt áherslu á eflingu þessarar starfsemi heima í héraði.

 

Í ljósi mikilvægi byggða – og atvinnuþróunarstarfsemi leggja Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi mikla áherslu á að vel verði vandað til þeirra verka sem hér er stofnað til og að ekki sé verið að gera breytingar einungis til að gera breytingar heldur að kjarnatriði verði efling þessarar starfsemi í landinu öllu.

 

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa rekið atvinnuráðgjöf í samvinnu við ríkið síðan 1981 og samtvinnað byggða – og atvinnuþróunarstarf heima í héraði með ágætum árangri. Ljóst er af kynningu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins á þessum frumvarpsdrögum að tilgangur þess og hugmyndir SSV fara mjög saman og því nauðsynlegt að tryggja í endalegu frumvarpi að tilgangur laganna náist fram. Jafnframt verði tekinn af allur vafi um fjármögnun og starf atvinnuþróunarfélaganna.

 

 

3.  Vaxtasamningur Vesturlands – staða mála.

Ólafur greindi frá þeirri vinnu sem átt hefur sér stað.  Inga Dóra Halldórsdóttir hefur tekið að sér að ritstýra vaxtasamningsskýrslunni og Vífill Karlsson mun í maí sinna vaxtasamningsverkefninu ásamt Ingu Dóru og Ólafi. 

 

 

4.  Samgöngumál.

SSV fangar því að samgönguyfirvöld hafa bent á þann möguleika að hefja framkvæmdir við Sundabraut að norðanverðu eins og fram kemur í máli samgönguráðherra í umræðum á Alþingi  og vitnað er til í mbl. Þann 27. apríl. Stjórnin minnir á að Sundabraut er í þágu allra landsmanna og ein mikilvægasta samgöngubót landsins.  Í því sambandi vill stjórn SSV ítreka bókun sína frá fundi þann 25. nóvember 2005 sem hljóðaði svo:

Stjórn SSV lýsir áhyggjum sínum af því að þrátt fyrir að búið sé að tryggja fjármagn í lagningu Sundabrautar um Kleppsvík og Grafarvog liggur ekki fyrir ákvörðun og/eða samkomulag um hvar eða hvernig brautin á að liggja.  Svo virðist sem enn sé langt í land með að sú ákvörðun verði tekin. Stjórnin vill af því tilefni leggja til við Samgönguráðuneyti og Borgarstjórn Reykjavíkur að sá möguleiki verði skoðaður að byrja á hinum endanum og hefja hið fyrsta framkvæmdir við þverun Kollafjarðar og lagningu brautarinnar um Álfsnes og Geldinganes að Gufunesi.

 

Stjórn SSV hvetur eindregið til þess að borgaryfirvöld og samgönguyfirvöld nái saman hið fyrsta svo málið tefjist ekki enn frekar en orðið er.

 

 

5.  Menningarsamningur. 

Helga greindi frá stöðu mála varðandi ráðningu í starf menningarfulltrúa Vesturlands.  Elísabet Haraldsdóttir hefur verið ráðin í 50% starf og hefur störf í júlí.  Úthlutun úr menningarsjóði mun fara fram laugardaginn 13. maí kl. 15.30 í húsakynnum Landnámsseturs í Borgarnesi.  Um sjötíu umsóknir bárust í sjóðinn alls að upphæð 93miljónir en sjóðurinn hefur 25milj til skiptanna á þessu ári.

 

 

6. Varamaður í menningarráð Vesturlands

Stjórn SSV samþykkir að Kristján Sveinsson verði varamaður Helgu Halldórsdóttur í menningarráð Vesturlands.

 

 

7. Endurskoðun laga SSV.

Á stjórnarfundi SSV þann 25. nóvember 2005 var samþykkt að stofna vinnuhóp um endurskoðun laga SSV.

Eftirtaldir hafa verið skipaðir frá hverju svæði:

Kristinn Jónasson frá Snæfellsnesi.

Sveinbjörn Eyjólfsson úr Borgarfirði norðan Skarðsheiðar.

Helga Halldórsdóttir  úr stjórn SSV

Þorsteinn Jónsson úr Dölunum

Gísli S. Einarsson sunnar Skarðsheiðar

 

 

8. Dagsetning aðalfundar.

Stjórn SSV samþykkti að aðalfundur SSV verði haldinn föstudaginn  8. september n.k.  Einnig var samþykkt að halda aðalfundinn í Grundarfirði að þessu sinni.

 

 

9. Framlögð mál.

a)       framlögð tilkynning um Fjórðungsþing Vestfirðinga sem haldið verður þann 1. og 2. september n.k. í Súðavík.

b)      Framlögð tilkynning um ársþing SSNV sem haldið verður dagana 25. og 26. ágúst n.k. í Húnaþingi Vestra.

 

 

10. Önnur mál.

 

 

Samþykkt að gera samning við Skessuhorn um 30 þús kr greiðslu á mánuði í 6 mánuði vegna upplýsinga og  fréttavefs .

 

Kynntar voru innsendar  útnefningar vegna frumkvöðuls Vesturlands. Samþykkt var að kalla saman nefndina og klára málið sem fyrst.

 

Formaður sagði frá því að fyrirhugað væri að taka skóflustungu að nýjum framhaldsskóla í Borgarnesi 4. maí.

 

Formaður lagði til að næsti fundur yrði fyrri hluta júní og veður haldinn í Dölum.

 

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl 11:20