39 – Heilbrigðisnefnd Vesturlands

admin

39 – Heilbrigðisnefnd Vesturlands

FUNDARGERÐ
39.  FUNDUR HEILBRIGÐISNEFNDAR VESTURLANDS

Miðvikudaginn 9. apríl 2003 kl. 16.00 kom heilbrigðisnefnd Vesturlands saman til fundar í  fundarsal Akranesbæjar, Akranesi.
Mættir voru:      Rúnar Gíslason, formaður, Jón Pálmi Pálsson, Sigrún Pálsdóttir, Ragnhildur Sigurðardóttir,  Helgi Helgason framkv.stjóri 
Laufey Sigurðardóttir sem ritaði fundargerð
Björg Ágústsdóttir, Finnbogi Rögnvaldsson og Þórður Þ. Þórðarson boðuðu forföll og  varamenn mættu ekki.
Dagskrá
Formaður setti fundinn og gerði athugasemd við það hvað illa væri mætt á fundi nefndarinnar.
1. Ársreikningur 2002
Framkv.stj fór yfir ársreikninginn.
Í ljós kemur að mikil vanskil hafa verið á innkomu eftirlitsgjalda sem veldur því að dregist hefur að greiða ýmis launatengd gjöld svo og laun framkvæmdastjóra. Gerðar eru athugasemdir við þetta í minnispunktum frá endurskoðanda.
Samþykkt að fela framkv.stj. að taka bankalán til greiðslu skulda.
Jón Pálmi lagði fram þá tillögu að senda lögfræðingi Umhverfisstofnunar fyrirspurn um hvort heimilt væri samkvæmt lögum að innheimta starfsleyfisgjöld áður en starfsleyfi væri gefið út. Samþykkt að senda UST erindi vegna þessa.
Nefndarmenn og framkvæmdastjóri skrifuðu undir ársreikninginn.
2. Gjaldskrá 2003
Framkv.stj  kynnti gjaldskrána og jafnframt samanburð við gjaldskrár annarra heilbrigðiseftirlitssvæða. Kom í ljós að eftirlitsgjöld á Vesturlandssvæði væru í lægri kantinum í samanburðinum. Gjaldskrár eru byggðar á sama grunni þannig að annaðhvort væru færri tímar skráðir í eftirlit á hvert fyrirtæki eða tíðni eftirlits væri ekki það sama á svæðunum. Kom fram í umræðunni að tekið hefði verið upp nýtt skráningarkerfi sem sýna mundi betur fram á eftirlit við hvert fyrirtæki. Heimilt væri samkvæmt gildandi gjaldskrá að innheimta hjá fyrirtækjum ef eftirlit færi fram úr eftirlitsáætlun einstaka fyrirtækis. Þá skiptu sýnatökur nokkru máli í eftirlitsáætlun.
Framkv.stj. taldi að endurskoða ætti uppbyggingu gjaldskrár í lok árs með þetta nýja skráningarform í huga og lagði til að gjaldskráin yrði samþykkt óbreytt.
Gjaldskráin samþykkt en Jón Pálmi sat hjá, en hann telur eðlilegt að gjaldskrá HEV verði sambærileg og er hjá eftirlitum annarra svæða á landsbyggðinni.
3. Úrskurður Umhverfisráðuneytis í máli Æsis ehf.
Framkv.stj. og formaður kynntu málið. Kom fram í úrskurði að heilbrigðisnefnd ætti að gefa út starfsleyfi með hliðsjón af úrskurðinum.
Samþykkt að fara fram á það við sveitarstjórn Kolbeinsstaðahrepps að hún láti fara fram rannsókn á svæðinu sbr. ákvæði um flokkun vatns í reglugerð  nr.796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Kom fram í umræðunni að sveitarstjórnum á Vesturlandi hefði verið kynnt þessi reglugerð og í tvígang hefði verið óskað þess að rannsókn færi fram á vatnasvæðum sbr. ofangreinda reglugerð.
Framkvæmdastjóra falið að kynna aðilum sem komið hefðu komið fram með athugasemdir við starfsleyfi fyrir fyrirtækið úrskurð ráðuneytisins og jafnframt að geta þess að starfsleyfi yrði nú unnið með hliðsjón af úrskurðinum.
4. Önnur mál.
a) Kosning varaformanns heilbrigðisnefndar. Formaður stakk upp á Jóni Pálma sem varaformanni. Samþykkt samhljóða.
b) Framkv.stj. tilkynnti að fundargerðir heilbrigðisnefndar væru nú komnar inn á vef SSV.
c) Framkv.stj. kynnti að búið væri að senda öllum sveitarstjórnum á Vesturlandi bréf þar sem óskað væri eftir samstarf vegna meintrar sölu tóbaks til unglinga innan 18 ára aldurs.
d) Framkv.stj. kynnti tölvupóst frá Andrési Péturssyni formanni heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis þar sem hann benti á könnun Samtaka atvinnulífsins um eftirlit með fyrirtækjum.
e) Rætt lítillega um frumvarp til laga um Matvælastofu. Þeir sem tóku til máls um þetta voru á því að ef eftirlitinu verði skipt upp t.d. með stofnun matvælastofu þá mundi byrði og skörun eftirlits aukast enn meira hjá fyrirtækjum.
f) Lögð fram gögn vegna úrskurðar Umhverfisráðuneytis vegna fiskeldismáls á Vestfjörðum.
g) Samþykkt að hafa aðalfund miðvikudaginn 30. apríl, klukkan 15:00, í Ráðhúsinu Stykkishólms. Boðað til stjórnarfundar kl. 14 á sama stað.
h) Samþykkt að fela framkvæmdastjóra að senda sveitarstjórnum bréf þar sem þau væru hvött til að senda fulltrúa á aðalfundinn.
 
Fundi slitið kl: 19:00.