• slide
  • slide
  • slide
  • slide

Um menningarmál hjá SSV


Þegar Menningarráð Vesturlands var lagt niður í árslok 2013 tók SSV yfir verkefni þess. Verkefni og markmið menningarráðs voru fjölbreytt og má þar nefna verkefni sem styðja við ýmis konar menningarstarf í gegnum úthlutanir menningarstyrkja. Styrkveitingar hafa færst yfir til Uppbyggingarsjóðs Vesturlands og veitir hann styrki til menningarstarfs í landshlutanum.

Menningarfulltrúi


Menningarfulltrúi vinnur að ýmsum samstarfsverkefnum og ráðgjöf varðandi menningarmál. Menningarfulltrúi starfar með uppbyggingarsjóðnum og veitir umsækjendum um menningarstyrki upplýsingar og ráðgjöf. Menningarfulltrúi vinnur einnig með fagráði menningarmála að tillögu um úthlutun menningarstyrkja úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands og heldur utan um samskipti við styrkþega sjóðsins. Mörg mjög áhugaverð og fjölbreytt verkefni hafa hlotið menningarstyrki, auk þess sem veittir hafa verið styrkir til stofnana og fyrirtækja sem vinna að menningarmálum.

Þarftu aðstoð?
Hafðu samband við menningarfulltrúa SSV:
Sigursteinn Sigurðsson
Sími: 433-2313 / 698-8503
Netfang: sigursteinn@ssv.is

Menningarstefna


Stefnumótun í menningarmálum var áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands árin 2015 og 2016. Vinnu við menningarstefnu fyrir Vesturland var lokið á árinu 2016, en að vinnunni komu tæplega 100 Vestlendingar. Stefnan er leiðarljós um menningarstarf og mun styrkja samstarf um menningarmál og standa vörð um menningararfinn á Vesturlandi. Menningarstefnunni er ætlað mynda grunn fyrir ákvarðanatöku SSV í menningarmálum þ.m.t. við úthlutun verkefnastyrkja úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Þar eru mótaðar helstu áherslur í menningarmálum á Vesturlandi í heild, en einstökum svæðum eða sveitarfélögum er ætlað að móta sína eigin menningarstefnu með staðbundnum útfærslum. Sveitarfélögin eru eins ólík og þau eru mörg. Áherslur og viðhorf til menningarverkefna eru þar af leiðandi breytileg. Þessi ólíku viðhorf koma fram í menningarstefnunni. En einnig er lögð áhersla á að sveitarfélög á Vesturlandi hafi það að leiðarljósi að sameiginleg verkefni efli fjölbreytileikann og gott samstarf til framtíðar.

Í menningarstefnu Vesturlands eru tilgreind ýmis verkefni sem unnið verður að á gildistíma stefnunnar sem er til 2019.

Menningarstefna þarf að vera stöðugt í mótun og endurskoðun til þess að hún geti nýst okkur sem best. Þessi menningarstefna verður endurskoðuð 2019 um leið og Sóknaráætlun rennur út.