Sóknaráætlun Vesturlands


Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) hefur samkvæmt lögum umsjón með Sóknaráætlun Vesturlands og framkvæmd hennar. Á árinu 2015 var undirritaður samningur á milli atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðuneytisins annars vegar og SSV hins vegar um Sóknaráætlun Vesturlands 2015-2019. Í samningnum kemur fram að verkefni SSV eru þríþætt:

  • Í fyrsta lagi að vinna framtíðarsýn og marka stefnu fyrir Vesturland á samningstímanum þar sem fram koma skýr markmið og tillaga að aðgerðum
  • Í öðru lagi að skilgreina og vinna að sérstökum áhersluverkefnum fyrir Vesturland sem hafa skírskotun til stefnu sóknaráætlunar og eiga að efla byggð í landshlutanum
  • Í þriðja lagi að stofna Uppbyggingarsjóð fyrir Vesturland sem veitir styrki til menningar- og nýsköpunarverkefna

Vinnu við stefnu og framtíðarsýn Sóknaráætlunar Vesturlands lauk á haustdögum 2015 og komu á annað hundrað Vestlendingar að mótun hennar. Þá voru skilgreind áhersluverkefni fyrir árin 2015 og 2016 sem unnið var að árið 2016. Síðla árs 2016 hófst vinna við að skilgreina verkefni fyrir árið 2017. Áhersluverkefni geta staðið yfir í eitt eða fleiri ár, en ekki lengur en til loka samningstímans. Uppbyggingarsjóður Vesturlands hóf starfsemi sýna vorið 2015. Sérstök stjórn stýrir sjóðnum. Sjóðurinn hefur hingað til úthlutað styrkjum tvisvar sinnum á ári og á árunum 2015 og 2016 úthlutaði sjóðurinn ríflega hundrað milljónum til nýsköpunar- og menningarverkefna.

Sérstakur samráðsvettvangur hefur beina aðkomu að gerð sóknaráætlunar og fylgist með framgangi hennar. Alls sitja 30 aðilar í samráðsvettvangi, 12 fulltrúar frá stjórn SSV og 18 fulltrúar frá ýmsum haghöfum s.s. atvinnulífi, fræðasamfélagi, menningarlífi og félagasamtökum. Sóknaráætlun er fjármögnuð með framlögum frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélögum á Vesturlandi. Framlag sveitarfélaga hefur numið um 15% af árlegum framlögum til áætlunarinnar.

Við undirritun samnings um Sóknaráætlun Vesturlands voru felldir úr gildi Vaxtarsamningur Vesturlands og Menningarsamningur Vesturlands og urðu þessir samningar í raun hluti af núverandi sóknaráætlun.