35 – Heilbrigðisnefnd Vesturlands

admin

35 – Heilbrigðisnefnd Vesturlands

Heilbrigðiseftirlit Vesturlands
Borgarbraut 13, Borgarnesi
Stillholti 16-18, Akranesi

FUNDARGERÐ

35.  FUNDUR HEILBRIGÐISNEFNDAR VESTURLANDS
Föstudaginn 25. október 2002 kl. 16.00 kom heilbrigðisnefnd Vesturlands saman til fundar við Félagsheimilið Lindartungu, Kolbeinsstaðahreppi.
Mættir voru:     Rúnar Gíslason, formaður,  Jón Pálmi Pálsson
Ragnhildur Sigurðardóttir, Þórður Þ. Þórðarson, Finnbogi Rögnvaldsson, Helgi Helgason, sem ritaði fundargerð, Laufey Sigurðardóttir.
Sigrún Pálsdóttir og Björg Ágústsdóttir boðuðu forföll og varamenn þeirra gátu ekki mætt.

DAGSKRÁ

1. Vettvangsskoðun um land Syðri-Rauðamels og nágrenni.
Nefndarmenn fóru í vettvangsskoðun á það svæði í landi Syðri-Rauðamels þar sem fyrirhugað er að setja niður bleikjueldi. Þá var farið vestur fyrir Haffjarðará og upp með henni til að kynna sér betur allar aðstæður.
2. Bleikjueldi Æsis ehf. að Syðri-Rauðamel.
Málið var rætt með hliðsjón af vettvangsskoðun og framkomnum athugasemdum við drög að starfsleyfi.
Nefndin samþykkti að hafna erindinu á grundvelli eftirfarandi:
Umrætt landsvæði er á náttúruminjaskrá. Fyrirhuguð framkvæmd mundi óhjákvæmilega hafa áhrif á sérstaka og viðkvæma landslagsgerð þess.
Misvísandi umsagnir umsagnaraðila vegna möguleika á sjúkdómum frá rekstrinum.
Ekki hefur verið sýnt fram á rekstrarhæfni fyrir reksturinn með fullnægjandi hætti.
Auðvelt ætti að vera að koma rekstrinum fyrir á öðru svæði þar sem náttúran er ekki jafn viðkvæm fyrir rekstri sem hér er um að ræða, og nálægð ekki jafn mikil gjöfulli laxveiðiá sem stafar hætta af fisksjúkdómum ef óhapp hendir í fiskeldinu.
3. Endurnýjað starfsleyfi fyrir alifuglabú að Fögrubrekku, Innri-Akraneshreppi.
Lögð fram umsókn Kristjáns S. Gunnarssonar um 11.000 fugla hús og starfsleyfi fyrir þá starfsemi.
Samþykkt

4. Alifuglabú að Eskiholti II.
Lagt fram á ný umsókn Bergs og Birnu um alifuglabú að Eskiholti II, Borgarbyggð. Ennfremur var lögð fram eiganda Eskiholts I, þar sem hann lýsir sig samþykkan erindinu.
 Samþykkt að auglýsa drög að starfsleyfi.
5. Önnur mál
Samþykkt að senda sveitarstjórnum á Vesturlandi bréf þar sem sveitarstjórnir eru hvattar til að skoða framtíðarskipulag sveitarfélaganna áður en ákvarðanir eru teknar um heimildir til staðsetningu á einstaka svína- og hænsnabúum. Skipulag sveitarfélaganna verði þannig skoðað í heild sinni m.a. með tilliti til framtíðar vatnsupptökusvæða, frístundabúskapar og fleira áður en ákvarðanir eru teknar um breytingu á búskaparháttum á einstaka jörðum.  
Framkvæmdastjóri greindi frá fundi sem haldinn var að Tungu, Svínadal vegna matsáætlunar fyrir stækkun alifuglabús Móa að Hurðarbaki.
Framkvæmdastjóri greindi frá bréfi sem borist hefði frá HVR vegna fyrirhugaðs þorskeldis í Hvalfirði.
Framkvæmdastjóri greindi frá fundi sem hann átti sat um morguninn þar sem niðurstöður mælinga vegna sorpurðunarsvæðis að Fíflholtum voru birtar.
Heilbrigðisnefnd samþykkti að senda forstjóra Hollustuverndar ríkisins bréf þar sem óskað væri eftir formlegum viðræðum um yfirtöku Heilbrigðiseftirlits Vesturlands á eftirliti frá HVR.

Fundi slitið kl: 18:50.