Stjórn SSV fjallar um opinber störf á Vesturlandi

SSVFréttir

Á stjórnarfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi  í síðustu viku voru til umræðu opinber störf í landshlutanum.

Rætt var um opinber störf á Vesturlandi með hliðsjón af hagvísi sem Vífill Karlsson hagfræðingur SSV tók saman.  Jafnframt var rætt um tillögu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni, í tillögu ráðherra eru Vestfirðir, Norðurland og Austurland skilgreind sem landsbyggð en ekki Vesturland og Suðurland.
Stjórn SSV bókaði eftirfarandi um málið:

„Í nýjum Hagvísi SSV um opinber störf kemur fram að þau eru hlutfallslega hvergi færri en á Vesturlandi.  Það skiptir mikil máli að opinber þjónusta ríkisins sé með þeim hætti að hægt sé að veita íbúum allra landshluta góða þjónustu og opinberar stofnanir og fyrirtæki í opinberri eigu hafi þann mannauð sem til þarf.  Jafnframt er afar mikilvægt að ríkið dreifi starfsemi sinni um landið og treysti með þeim hætti atvinnulíf um allt land.  Með því móti er stuðlað að fjölbreyttara atvinnulífi sem og atvinnumöguleikum kvenna og ungs og menntaðs fólks.  Stjórn SSV leggur á það þunga áherslu að nú þegar móti stjórnvöld skýra stefnu um staðsetningu opinberra starfa á landsbyggðinni og þar verði sérstaklega horft til svæða þar sem opinberum störfum hefur fækkað undanfarin ár og þau eru hlutfallslega færri en í öðrum landshlutum.“

Jafnframt samþykkti stjórn að óska eftir fundi með forsætisráðherra til að ræða staðsetningu opinberra starfa á Vesturlandi

Varðandi tillögu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um flutning opinberra starfa á landsbyggðina bókaði stjórn SSV:

„Stjórn SSV fagnar frumkvæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um fjölgun starfa á landsbyggðinni frá 2020 fram til 2025 og að hann og forstöðumenn þeirra stofnana sem um er fjallað hafi sett sér mælanleg markmið um fjölgun starfa.  Það vekur hins vegar furðu að Vesturlands sé hvergi getið í skýrslunni, það er engu líkara en landshlutinn sé ekki lengur hluti af landsbyggðinni og þar sé ekki þörf á fjölgun opinberra starfa.  Í nýjum Hagvísi SSV um opinber störf kemur skýrt fram að þau eru hlutfallslega hvergi færri en á Vesturlandi. Jafnframt vekur það furðu að ekki skuli stefnt að því að efla samstarf Matís við Landbúnaðarháskóla Íslands, einungis tiltekið að efla samstarf við Háskólann á Akureyri og háskólasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni“

Þá samþykkti stjórn SSV að kalla eftir skýringum á þessu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Þessu tengdu ræddi stjórn einnig um starfsmannafjölda á starfsstöðvum Rarik.  Í kjölfar úttektar SSV á áhrifum óveðursins í desember 2019 hefur komið í ljós að sveitarstjórnarfulltrúar á Vesturlandi hafa áhyggjur af því að starfsfólki í starfsstöðum Rarik á Vesturlandi hafi fækkað og því sé fyrirtækið ekki jafn vel í stakk búið og áður til að bregðast við bilunum sökum óveðurs. Það vekur furðu að 66 af 204 stöðugildum hjá Rarik eru staðsett í Reykjavík og fyrirtækið ekki með neina raforkusölu í höfuðborginni.  Þá var einnig rætt um það að af 122 starfsmönnum Landsnets er enginn staðsettur á Vesturlandi.

Stjórn SSV samþykkti að óska eftir fundi með framkvæmdastjóra Rarik sem og framkvæmdastjóra Landsnets vegna þessa.

Fundargerð stjórnarfundar 5. febrúar

Ríkisstörf á Vesturlandi – Hagvísir Vesturlands

 

Ríkisstörf og opinberar stofnanir, breyting á milli áranna 2013 og 2018. Byggt á gögnum Byggðastofnunar. Hlutfallsleg breyting starfa annars vegar og síðan leiðrétt fyrir breytingu á fjölda íbúa hins vegar.