Skrifað undir viðaukasamning við Sóknaráætlun Vesturlands.

SSVFréttir

Nýverið skrifuðu þau Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir ferðamála- og nýsköpunarráðherra ásamt Rakel Óskarsdóttur formanni SSV undir viðaukasamning við Sóknaráætlun Vesturlands. Þar kemur fram að ráðuneytin munu leggja fram kr. 40.000.000 til uppbyggingar Vínlandsseturs í Leifsbúð í Búðardal.

Þessi samningur er gerður til þess að styrkja ferðaþjónustu í Dalabyggð og treysta byggð í sveitarfélaginu sem hefur átt undir högg að sækja vegna fækkunar íbúa og samdráttar í atvinnulífi.

Vínlandssetur er samstarfsverkefni Dalabyggðar, Eiríksstaðarnefndar og Landnámssetursins í Borgarnesi. Það er von þeirra aðila sem að setrinu standa að það verði nýr og öflugur segull fyrir ferðamenn í Dalabyggð þar sem hægt er að fræðast um landafundi Grænlands og Vínlands á söguöld og njóta góðra veitinga.