Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi ályktar um stöðvun veiða á grásleppu

SSVFréttir

Ályktun Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi vegna fyrirvaralausrar stöðvunar veiða á grásleppu.
Send til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Hafrannsóknarstofnunar og atvinnuveganefndar alþingis.
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) mótmæla harðlega þeirri ákvörðun sjávarútvegs – og landbúnaðarráðherra að stöðva fyrirvaralaust veiðar á grásleppu frá 3. maí s.l. og taka þar undir ályktanir sem einstök sveitarfélög og fyrirtæki hafa sent ráðherra og atvinnuveganefnd alþingis.
Á Vesturlandi hefur mikill fjöldi báta stundað grásleppuveiðar og í landsfjórðungnum eru hafnir sem eru á meðal helstu löndunarstaða grásleppu á landinu. Stór hluti báta á Vesturlandi hafði ekki hafið veiðar og einhverjir voru nýbyrjaðir.
Útgerðaraðilar sem stunda grásleppuveiðar þurfa að leggja út í kostnað vegna undirbúnings vertíðarinnar og voru fjölmargir útgerðaraðilar á Vesturlandi á lokametrum undirbúnings þegar veiðiheimildir voru afturkallaðar fyrirvaralaust. Fjárhagstjón þeirra er töluvert en yfirleitt eru þetta einyrkjar sem byggja meginafkomu sína á þessum veiðum.
Mikið misvægi er á milli landshluta þar sem veður, aðstæður í sjó og vernd lífríkis getur ráðið því hvenær best hentar að hefja veiðarnar. Í innanverðum Breiðafirði er t.d. ekki heimilt að hefja veiðar fyrr en 20. maí. Það er í hæsta máta óeðlilegt að þeir sem komast fyrstir af stað sitji einir að pottinum og aðrir verði að bíða og sjá hvort eitthvað verður eftir þegar þeir komast af stað. Á Vesturlandi er mikilvæg landvinnsla grásleppuafurða. Ljóst er að þar eins og í útgerðinni eru störf fólks í hættu. Þegar hefur ákvörðun ráðherra leitt til uppsagna starfsfólks og erfitt verður að halda viðskiptasamböndum gangandi ef ekki verður hægt að standa við gerða samninga .
Stjórn SSV skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurskoða fækkun veiðidaga á þeim svæðum sem ekki höfðu hafið veiðar að neinu marki við Faxaflóa og Breiðarfjörð. Með því mætti milda það högg sem smáir útgerðaraðilar á þessu svæði verða annars fyrir. Ákvörðun ráðherra hefur að óbreyttu alvarleg áhrif á samfélögin á Vesturlandi sem þegar hafa orðið fyrir miklu áfalli vegna Covid-19.
Þá skorar stjórn SSV á Hafrannsóknarstofnun að hefja strax vinnu við að endurskoða ráðgjöf sína varðandi grásleppuveiðar með hliðsjón af þeim ábendingum sem hafa komið fram, bæði frá sérfræðingum og hagsmunaaðilum.
Loks skorar stjórn SSV á Alþingi að endurskoða hið fyrsta núverandi fyrirkomulag á grásleppuveiðum þannig að þessi staða geti ekki komið upp aftur.

Alyktun SSV – veiðar á grásleppu

Mynd: Sæfrost ehf.