Meðalaldur hækkar á Vesturlandi

VífillFréttir

Á Vesturlandi hækkaði meðalaldur minnst á Snæfellsnesi, um 0,5%, á milli áranna 2017 og 2018 en til samanburðar hækkaði hann á landsbyggðunum um 0,2% og 0,3% á landinu öllu á milli áranna. Hins vegar hækkaði hann minnst í Dölunum, 1,1%, þegar litið er til s.l. fjögurra ára en 1,7% landsbyggðunum og 2% á landinu öllu á sama tíma. Þar er hann reyndar hæstur á Vesturlandi og hefur verið frá a.m.k. árinu 1990.

Til nánari glöggvunar þá hækkaði meðalaldur um 0,9% á Akranessvæði á milli áranna 2017 og 2018, 1,3% á Borgarfjarðarsvæði, 0,5% á Snæfellsnesi og 1,1% í Dölunum. Hann hækkaði hins vegar  um 2,6% á Akranessvæði s.l. fjögur ár, 3,8% á Borgarfjarðarsvæði, 2,8% á Snæfellsnesi og 1,1% í Dölunum. Þetta er svo sem þekkt þróun og víða erlendis og kemur til út af betri heilsu og meira langlífi auk þess sem dregið hefur úr barneignum. Hins vegar er þetta áskorun fyrir samfélagið sem yfirleitt er kölluð öldrun samfélagsins alls og farið verður ekki nánar út í það hér. Athygli vekur hvað meðalaldur hefur breyst innbyrðis frá 1990. Nú er hann lægstur á Akranessvæði en var lægstur á Snæfellsnesi 1990. Þá hefur munurinn á milli Borgarfjarðarsvæðis og Dala minnkað aftur eftir að hafa aukist um tíma frá 1990. Þá hefur meðalaldur verið lægri á landsbyggðunum en á höfuðborgarsvæðinu frá bankahruni sem sést þegar meðalaldur þeirra og landsins alls er borinn saman. Frekari tölfræði yfir meðalaldur eftir sveitarfélögum á Vesturlandi má finna hér (smellið hér) á heimasíðu SSV. Þá má finna grófa aldursdreifingu á Vesturlandi og þróun hennar frá 1980 hér (smellið hér) og aldurstré hér (smella hér). Þá er ýmsa samantekt á tölfræði yfir Vesturland að finna hér (smella hér).