Heimsókn til Austurbrúar á Austurlandi

SSVFréttir

Elísabet Haraldsdóttr, menningarfulltrúi SSV og Ólöf Guðmundsdóttir, atvinnuráðgjafi SSV tóku dagana 30 0g 31 maí s.l.  þátt í fundi á Egilsstöðum, en þar hittust menningarfulltrúar og verkefnisstjórar uppbyggingarsjóða allra landshluta.

Fyrri daginn var til umræðu uppbygging menningar í gegnum sóknaráætlanir og helstu áherslur hverjum landshluta.  Rætt var ítarlega um menningarmiðstöðvar, rekstur þeirra og fjárveitingar bæði frá ríki, sveitarfélögum og samfélaginu.  Þá varð mikil umræða um starfsemi uppbyggingarsjóða landshlutanna og farið ítarlega yfir hvernig nýtt umsóknarkerfi sem allir landshlutar tóku í notkun nú á árinu hafi reynst, kosti þess og galla.  Samhljómur var um að umsækjendur þyrftu að hafa aðgang að betri leiðbeiningum um hvernig fylla eigi út umsóknir og skýrslur.  Ýmsar hugmyndir komu upp meðal annars að gera Youtube myndband sem umsækjendur gætu stuðst við.

Auk fundarhalda um samþættingu á vinnubrögðum voru gestum boðið í ferðir um svæðið.  Fyrri daginn var farið í heimsókn til Seyðisfjarðar, fyrst í Skaftfell og skoðuð listasýning þar, því næst var kynning á LungA-skólanum, lýðháskóla sem staðsettur er í gömlu netaverkstæði sem Síldarvinnslan gaf skólanum.  Á Seyðisfirði er lögð mikil áhersla á menningu og listir,  en á árinu 2017 komu 350,000 ferðamenn til bæjarins en íbúar þar eru 650 talsins.  Seinni daginn var keyrt í Fljótsdalinn, Óbyggðasetur Íslands heimsótt og óbyggðasýningin skoðuð. Óbyggðasetur er friðsæll staður, staðsett rétt við brún stærstu óbyggða Norður Evrópu.  Á setrinu má upplifa anda fortíðarinnar í gegnum frábæra sýningu um óbyggðir Íslands, en þar er einnig boðið upp á gistingu og sérsniðnar ferðir upp á öræfin.  Óbyggðasetrið er einstaklega vel heppnað verkefni í menningartengdri ferðaþjónustu