Fyrsta alíslenska byggmjólkin að koma á markað

SSVFréttir

Þessa dagana er ný Byggmjólk sem er jurtadrykkur unnin úr íslensku byggi að fara í sölu í ýmsum verslunum hér á landi.  Byggmjólkin er framleidd af Kaju Organic á Akranesi.  Kaja Organic fékk fyrir tveimur árum öndvegisstyrk úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að þróa og undirbúa framleiðslu á Byggmjólkinni.

Í tilefni þess að Byggmjólkin er komin í framleiðslu og er að fara í sölu í verslunum bauð Karen Jónsdóttir eigandi Kaju Organic þeim Ólafi Sveinsson og Páli S. Brynjarssyni frá SSV í mjólkurpartý.

„Þegar ég segi íslensk byggmjólk þá erum við að tala um íslenskt bygg en sú jurtamjólk sem gerð var tilraun með að framleiða áður var úr erlendum höfrum blönduð íslensku vatni. Hér erum við með íslenskt lífrænt bygg frá Vallanesi,“ segir Karen Jónsdóttir í samtali við Skessuhorn.

„Það sem er nokkuð merkilegt við íslenska byggið er að það þarf einungis 6,8% bygg til þess að ná þessu öfluga bragði á meðan Evrópa er með allt að 12-17% bygg í sínum drykkjum. Ég sel byggmjólkina í glerumbúðum. Bæði er það gert upp á geymsluþol vörunnar og svo umhverfissjónarmið,“ segir Karen. „Vöruþróun og nú framleiðslu hef ég sinnt samhliða rekstri míns fyrirtækis og því er ég stolt og glöð að hafa náð þessum áfanga. Loksins náði ég að klára. Útkoman er þessi eðaldrykkur sem fer í sölu næsta miðvikudag,“ segir Karen.

Byggmjólkin verður seld í takmörkuðu upplagi til að byrja með því næsta skref er að auka framleiðslugetuna með hentugri vélbúnaði. „Byggið er einstaklega hollt enda inniheldur það mikið af beta-glucan sem lækkar kólesteról, er gott gegn stressi og styrkir ofnæmiskerfið. Því til viðbótar myndar byggið gel sem fóðrar og mýkir magann og nærir slímhúð ristilsins. Næstu skref eru svo byggmjólkur drykkir og fleiri afurðir m.a. jurtajógúrt,“ segir Karen að endingu.

PÁLL, KAJA OG ÓLAFUR SKÁLA Í ÍSLENSKRI BYGGMJÓLK

Hér má sjá myndband þar sem Kaja segir frá fyrirtækinu sínu, Kaja Organic: