Asco Harvester fékk frumkvöðlaverðlaun SSV árið 2017.

SSVFréttir

Fyrirtækið Asco Harvester fékk Frumkvöðlaverðalaun SSV á frumkvöðladeginum sem haldinn var í Háskólanum á Bifröst miðvikudaginn 8 nóvember s.l.
Asco Harvester ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem varð til eftir áralanga þróun á sjávarsláttuvélinni Asco.
Þeir sem koma að fyrirtækinu á einn eða annan hátt eiga tengingu í Breiðafjörðinn og hafa þekkingu og reynslu á þangöflun, þangvinnslu, skipasmíði og sjómennsku. Þau systkinin Ingvar, Ómar og Anna Ólöf Kristjánsbörn hafa verið í fararbroddi í uppbyggingu fyrirtækisins og eru starfsmenn þess í dag.
Daglegur rekstur félagsins felst að mestu leyti í framleiðslu, markaðsstarfi, almennum rekstri, sölu á aukabúnaði og sekkjum ásamt sölu eða leigu á sjávarsláttuvél.  Verkefnið hefur vakið mikla athygli og fengið styrki úr Tækniþróunarsjóði, Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka , Atvinnumál kvenna og Uppbyggingarsjóði Vesturlands.
Sjávarsláttuvélin var sjósett með viðhöfn í Stykkishólmi í ágúst s.l. og þessa dagana er verið gera ýmsar prófanir á vélinni áður en farið verður í frekari framleiðslu.

ljósmyndir :Sumarliði Ásgeirsson.

Á frumkvöðladeginum voru flutt ýmis fróðleg erindi um starfsemi frumkvöðla, en það voru frumkvöðlarnir Karen Jónsdóttir hjá Kaju organic á Akranesi, Hraundís Guðmundsdóttir á Rauðsgili sem var valin handverksmaður ársins á Handverkshátíðinni á Hrafnagili í sumar og Viðar Reynisson hjá Náttskugga sem sögðu frá starfsemi sinni og ræddu ýmsa þætti í starfi frumkvöðulsins.  Auk þeirra var Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst með erindi.
Dagurinn heppnaðist vel og verður vonandi til þess að efla enn frekar starfsemi frumkvöðla á Vesturlandi.