Ályktanir og fréttir af haustþingi SSV 11.okt. 2017

SSVFréttir

Haustþing SSV 2017 var haldið á Akranesi 11 október s.l.

Á þinginu var samþykkt starfs- og fjárhagsáætlun SSV fyrir árið 2018, ályktað var um atvinnu- og umhverfismál, samgöngumál og fjarskipti,
opinbera þjónustu og ýmis málefni sveitarfélaga. Um 50 manns sátu þingið, sveitarstjórnarmenn af Vesturlandi auk ýmissa gesta.
Góðir gestir ávörpuðu þingið, en þeir Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Haraldur Benediktsson fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis og Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga fluttu erindi.

Sérstakt þema þingsins voru húsnæðismál. Magnús Magnússon ritstjóri stýrði pallborðsumræðum um þema þingsins og í pallborði voru: Óli Jón Gunnarsson framkvæmdastjóri,  Rakel Óskarsson formaður SSV,  Sigrún Ásta Magnúsdóttir frá Íbúðalánasjóði og Vífill Karlsson hagfræðingur SSV. Líflegar umræður urðu um húsnæðismálin og hvernig hægt væri að stuðla að því að meira væri byggt á Vesturlandi.  Af umræðunni mátti ráða að töluverður skortur er á húsnæði á Vesturlandi og því er afar mikilvægt að stuðla að því að byggt verði húsnæði á Vesturlandi.

Að loknu haustþingi var haldinn aukaaðalfundur SSV þar sem lögð var fram tillaga til lagabreytinga varðandi stjórnarkjör SSV. Þar var samþykkt að sveitarfélögin tilnefni fulltrúa í stjórn SSV og hægt sé að skipa nýja stjórnarmenn á aðalfundi eða haustþingi ef stjórnarmenn missi kjörgengi eða óski eftir því að láta af störfum. Á fundinum var samþykkt að Geirlaug Jóhannsdóttir tæki sæti Magnúsar Smára Snorrasonar  og Stefán Ármannson  sæti Ásu Helgadóttur í stjórn SSV.

Ályktanir þingsins má sjá hér